Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er að finna yfirlit yfir þá tíu þætti sem tillöguhöfundar töldu þurfa að meta „í þeim tilgangi að skapa öruggt lagaumhverfi til þess að hugsjónin um að gera Ísland að miðstöð tjáningarfrelsis geti orðið að veruleika“. Stýrihópurinn fjallaði sérstaklega um hvern þessara þátta fyrir sig. Hér eru samanteknar niðurstöður hópsins hvað varðar hvern þeirra, í þeirri röð sem þeir koma fyrir í greinargerðinni:

Heimildarvernd

Í greinargerðinni var meðal annars vísað til þess að samkvæmt drögum að frumvarpi til laga um fjölmiðla sem þá lágu fyrir í mennta- og menningarmálaráðuneyti, sbr. 25. gr. draganna, væri gert ráð fyrir að fjölmiðlamönnum yrði óheimilt að gefa upp heimildarmenn sína nema með samþykki þeirra eða á grundvelli 119. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Sagði því næst að flutningsmenn teldu þetta ákvæði fela í sér „óþarflega víðtæka undantekningu á svo mikilvægri reglu sem vernd heimildarmanna er“. Þá sagði að þeir teldu að ákvæðið gæti stangast á við tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins sem lúta að rétti fjölmiðlamanna til að halda heimildum sínum og heimildarmönnum leyndum og æskilegt væri að styrkja heimildavernd talsvert umfram það sem fram kæmi í drögunum.

Í nóvember 2010 var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um fjölmiðla. Var 25. gr. þess og umfjöllun um hana í greinargerð nær óbreytt úr fyrrnefndum drögum. Frumvarpið hlaut þinglega meðferð og var afgreitt frá Alþingi sem lög nr. 38 20. apríl 2011. Því var nokkuð breytt í meðförum þingsins en ákvæðum 25. gr. var hins vegar ekki breytt. Í ljósi þeirrar niðurstöðu löggjafans taldi stýrihópurinn ekki tilefni til að aðhafast frekar hvað varðar vernd heimildarmanna.

Vernd afhjúpenda

Þessu næst var í greinargerðinni fjallað um afhjúpendur (e. whistleblowers), sem „hafi komið upp um mörg spillingarmál, bæði í einkageiranum og þeim opinbera. Ýta ætti undir slíkar afhjúpanir og telja flutningsmenn rétt að íhuga hvort mögulegt sé að setja sértækar reglur sem auka hvatann til þess að afhjúpa óeðlilega starfshætti“, eins og sagði í greinargerðinni. Var því lýst yfir í henni að skoða ætti að gera breytingar á sveitarstjórnarlögum og á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins varðandi þagnarskyldu til að almannahagsmunir varðandi upplýsingafrelsi séu sem best tryggðir. Þá var bent á að tillögur þessa efnis hefðu lagðar fram á fyrri þingum.

Stýrihópurinn viðaði að sér margs kyns gögnum um uppljóstrun og verndun uppljóstrara, hélt málþing um tjáningarfrelsi og vernd afhjúpenda (hlekkur ekki lengur virkur 11. júní 2016: vefsíðan í vefsafni Landsbókasafns, upptökur (hýstar á Vimeo) ekki aðgengilegar) og beindi ábendingu til forsætisráðuneytisins um að æskilegt væri að gera breytingar á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, þar sem kveðið væri nánar á um inntak þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Brást ráðuneytið við með því að fá dr. jur. Pál Hreinsson dómara við EFTA-dómstólinn til að semja drög að slíku frumvarpi og skýringum. Var frumvarpið, þ.e. frumvarp til laga um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993 (einföldun og samræming þagnarskylduákvæða), sett á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar 2015-2016.

Að lokinni skoðun stýrihópsins á þeim gögnum sem hann viðaði að sér um efnið komst hann að þeirri niðurstöðu að það að setja saman tillögur að heildarlöggjöf um vernd afhjúpenda yrði afar umfangsmikið verk. Hópurinn ákvað því að skipta verkefninu í minni verkhluta, eftir því hvort um væri að ræða innri eða ytri uppljóstrun, innan stjórnsýslu eða á hinum almenna markaði og eftir því hvort um væri að ræða uppljóstrun þar sem uppljóstrarinn kysi að njóta nafnleyndar eður ei. Skema fyrir þessa flokkun álitaefna sem snúa að vernd uppljóstrara er að finna í töflu 1 hér að neðan.

Tafla 1: Verndun uppljóstrara, flokkun álitaefna
Innan stjórnsýslu Almennur markaður
Innri upplj. Ytri upplj. Innri upplj. Ytri upplj.
Nafnleynd 1 2 5 6
Ekki nafnleynd 3 4 7 8

Þessu næst skoðaði stýrihópurinn sérstaklega þau álitaefni sem falla undir liði 1 og 3 í töflu 1, þ.e. þau sem lúta að innri uppljóstrun innan stjórnsýslunnar. Loks tók hópurinn saman lýsingu á tilefni og markmiðum lagasetningar á því sviði, auk tillagna um lagabreytingar sem tilefni væri að gera af þessu tilefni. Er það mat stýrihópsins að þegar slík löggjöf liggi fyrir megi af fenginni reynslu takast á við það verkefni að setja réttarreglur um vernd uppljóstrara við þær aðstæður sem vísað er til í liðum 2 og 4-8 í töflu 1.

Samskiptavernd og vernd milliliða

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er vísað til þeirrar kvaðar um gagnageymd sem nú er að finna í lögum um fjarskipti og bent á að í deiglunni væri hvort svonefnd gagnageymdartilskipun Evrópusambandsins brytu gegn kröfum um meðalhóf við skerðingu friðhelgis einkalífsins. Kemur fram í greinargerðinni að flutningsmenn teldu að nauðsynlegt kynni að vera að endurskoða hin íslensku gagnageymdarákvæði. Með dómi Evrópudómstólsins 8. apríl 2014 var gagngeymdartilskipunin felld úr gildi þar sem hún bryti gegn 7. og 8. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi (Charter of Fundamental Rights of the European Union). Í því ljósi taldi stýrihópurinn að tilefni væri til að gera gangskör að því að fella umrædd ákvæði úr íslenskum lögum og samdi því frumvarp til laga um afnám gagnageymdar.

Þá er í greinargerðinni vikið að ákvæðum íslenskra laga sem takmarka ábyrgð milligönguaðila á borð við netveitur og hýsingaraðila á því efni sem þeir flytja eða hýsa. Er þessi vernd milliliða ein af forsendum fyrir frjálsum skoðanaskiptum í upplýsingasamfélagi nútímans. Í greinargerðinni er vikið að þeirri réttarreglu sem getur leitt til þess að vernd milliliða falli niður við það eitt að beint sé að þeim tilkynningum um að það efni sem þeir flytja eða hýsa brjóti í bága við höfundarétt, án þess að fyrir liggi annað um það en mat sendanda. Af þessu tilefni skoðaði stýrihópurinn forsögu viðkomandi réttarreglna og innleiðingu þeirra í landsrétti á hinum Norðurlöndunum og samdi að því loknu drög að lagafrumvarpi þar sem áréttuð er takmörkun á ábyrgð hýsingaraðila á því efni sem þeir hýsa.

Lögbann á útgáfu fyrirbyggt

Í greinargerðinni er því lýst yfir að kanna þurfi hvernig tryggja megi „að lög verði ekki misnotuð í tilraunum til þöggunar sem takmarka og tálma tjáningarfrelsið sem tryggt er í stjórnarskránni“. Af því tilefni óskaði stýrihópurinn eftir því, í bréfi á árinu 2012, að réttarfarsnefnd teldi tilefni til að reglur um lögbannsheimildir í lögum um kyrrsetningu og lögbann o.fl. yrðu endurskoðaðar með hliðsjón af sjónarmiðum um takmörkun eða afnám heimilda til að leggja lögbann við fyrirhugaðri útgáfu/miðlun/birtingu. Svar barst ekki frá nefndinni.

Að lokinni skoðun sinni á viðfangsefninu á árinu 2015 komst stýrihópurinn að þeirri niðurstöðu að það kallaði ekki á breytingar á gildandi lögum.

Réttarfarsvernd

Vikið er að grundvallarreglunni um jafnt aðgengi að dómstólum í greinargerðinni. Svo sem þar er bent á getur verið fjárhagslega erfitt verjast málsóknum og getur verið mikill aðstöðumunur milli aðila dómsmála þegar kemur að því að geta staðið undir kostnaði við rekstur þeirra. Í greinargerðinni er bent á að ótti við málsóknir geti haft kælingaráhrif á tjáningarfrelsi og vísað til bandarískrar löggjafar sem ætlað er að stemma stigu við slíkum áhrifum, einkum með því að fella málskostnað og jafnvel réttarfarssektir á stefnanda tilhæfulausrar málshöfðunar.

Stýrihópurinn tók til skoðunar hvort að sá aðstöðumunur sem hér um ræðir sé annar í meiðyrðamálum en í öðrum dómsmálum en fann þess ekki sérstaklega stað. Þá skoðaði stýrihópurinn hvort tilefni sé til breytinga á fjölmiðlalögum til að fleiri mál fari í farveg sáttanefnda og þar með að fækki málum sem fara fyrir dómstóla. Loks skoðaði stýrihópurinn nýlega meistararitgerð um áhrif réttarfarslegra ákvarðana meiðyrðamála á vernd tjáningarfrelsis. Í ritgerðinni er m.a. bent á að málsmeðferð meiðyrðamála fyrir dómstólum getur haft kælæingaráhrif á tjáningarfrelsi, einkum þeirra er hafa reglulega uppi tjáningu sem mönnum kann að virðast fara nærri æru sinni, svo sem fjölmiðla. Kemst höfundur að þeirri niðurstöðu að dómaframkvæmd um niðurfellingu málskostnaðar í meiðyrðamálum sem sýknað er í gæti leitt til þess að fjölmiðlar veigri sér við það að fjalla t.d. um fjársterka aðila sem auðveldlega geta höfðað mál gegn þeim. Niðurstaða höfundar er aðframkvæmd ofangreindra réttarfarsákvarðana þarfnist nánari skoðunar og að gegnsæi í ákvörðunum dómstóla verði aukið. Tekur stýrihópurinn undir það mat og telur að tilefni sé til að skoðað verði hvort breyta skuli ákvæðum sem lúta að ákvörðunum um málskostnað, annars vegar til að auka gagnsæi við töku slíkra ákvarðana og hins vegar til að skerpa á þeirri meginreglu íslensks réttarfars að dæma skuli málskostnað þeim málsaðila sem vinnur mál að öllu verulegu leyti. Telur stýrihópurinn að slík almenn skoðun á réttarreglum um málskostnaðarákvarðanir eigi undir réttarfarsnefnd.

Vernd gagnagrunna og -safna

Í greinargerðinni er fjallað um dóm Mannréttingadómstóls Evrópu í máli dagblaðsins Tímes í London (hlekkur hleður niður pdf) og þá hættu fyrir tjáningarfrelsi sem felist í þarlendri lagatúlkun þess efnis að rafræn gagnasöfn teljist gefin út í hvert sinn sem þau eru skoðuð. Er í greinargerðinni mælst til þess að „stefnur á hendur útgefendum verka þurfi, að franskri fyrirmynd, að birta innan tveggja mánaða frá upphaflegri útgáfu verks og að hámark skaðabóta nemi jafngildi tíu þúsund evra“.

Stýrihópurinn tók þetta viðfangsefni til skoðunar og fann þess ekki stað að sams konar túlkun hafi verið viðurkennd fyrir íslenskum dómstólum. Þá ákvað hópurinn að skoða þetta álitaefni frekar í tengslum við smíð sína á drögum að frumvarpi um afnám refsinga fyrir meiðyrði, sbr. hér síðar.

Vernd gegn meiðyrðaflakki

Bent er á það í greinargerð með þingsályktunartillögunni að misnotkun breskrar meiðyrðalöggjafar, með þeim hætti að sækja fyrir þarlendum dómstólum mál vegna ummæla sem falla í öðrum ríkjum, hafi leitt til þess að víða hafi verið sett lög sem er sérstaklega ætlað að sporna gegn slíku meiðyrðamálaflakki. Er í greinargerðinni lýst vilja flutningsmanna til að setja slík lög hér á landi.

Við skoðun stýrihópsins á þessu viðfangsefni kom í ljós að nýlega höfðu tekið gildi lög í Bretlandi sem stemma verulega stigu við meiðyrðamálaflakk af umræddu tagi. Varð það niðurstaða stýrihópsins að ekki væri tilefni til að grípa til sérstakra aðgerða hér á landi af þessu tilefni að svo komnu máli.

Upplýsingafrelsi

Í greinargerðinni er fjallað um þágildandi upplýsingalög og sett fram gagnrýni á ákvæði þeirra. Er í því sambandi m.a. vikið að reglugerð ESB nr. 1049/2001 um aðgang almennings að skjölum Evrópuþingsins, -ráðsins og framkvæmdarstjórnarinnar og svonefndum Árósasamningi, um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Segir að flutningsmenn telji tilefni til að gera margvíslegar endurbætur á upplýsingalögunum.

Með lögum nr. 140/2012 voru lögfest á Alþingi ný upplýsingalög hér á landi. Í ljósi þess telur stýrihópurinn ekki tilefni fyrir hann til að aðhafast vegna þessa kafla í greinargerðinni.

Rafrænt aðsetur á Íslandi

Loks er í greinargerð með þingsályktunartillögunni lýst þeirri afstöðu flutningsmanna að rétt væri að kanna vandlega hvernig því verði komið við að alþjóðlegir fjölmiðlar og samtök geti flutt rafrænt aðsetur sitt hingað til lands. Segir að fyrirmyndina að því sé að finna í Vermont-ríki í Bandaríkjunum, þar sem í gildi eru lög um stofnun og rekstur sýndarfyrirtækja (e. Virtual Limited Liability Company) en áður en slíku lagaumhverfi yrði komið á þyrfti m.a. að skoða þær reglur sem gildi hér um fjölmiðla á Netinu, réttarákvæði í félagarétti „og að ákvæðum í væntanlegu frumvarpi um fjölmiðla sem varða lögsögu yfir fjölmiðlaþjónustuveitendum sem miðla myndefni og nota til þess íslenska jarðstöð eða gervitungl sem tilheyrir Íslandi“, eins og segir í greinargerðinni.

Á árinu 2011 voru sett hér á landi lög um fjölmiðla en með þeim voru innleidd ákvæði hljóð- og myndmiðlunartilskipunar ESB. Stýrihópurinn skoðaði hvernig hugmyndir um rafrænt aðsetur erlendra fjölmiðla á Íslandi samrýmdust framangreindum ákvæðum tilskipunarinnar. Þá kynnti hópurinn sér þær bandarísku fyrirmyndir (hlekkur ekki lengur virkur 11. júní 2016: greinin í vefsafni Internet Archive) sem vísað er til í greinargerðinni.

Í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið var ákveðið að fulltrúi úr stýrihópnum myndi taka sæti f.h. ráðuneytisins í „starfshópi til að móta stefnu um kjöraðstæður fyrir hagnýtingu internetsins og annarrar upplýsingatækni og um réttindavernd netnotenda og leggja til nauðsynlegar lagabreytingar þar að lútandi“, en hópnum var komið á fót á grundvelli þingsályktunar nr. 1/144 frá árinu 2014. Eftir skoðun hinna bandarísku réttarákvæða um sýndarfyrirtæki komst stýrihópurinn að þeirri niðurstöðu að málefninu væri betur komið fyrir hjá starfshópnum og kynnti því fulltrúi stýrihópsins það fyrir starfshópnum. Varð niðurstaðan sú að starfshópurinn samþykkti tillögu um að taka málefnið upp á sína arma.

Annað það sem talið er „styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi“ hér á landi

Auk þess að líta til framangreindra efnisþátta í greinargerð með þingsályktunartillögunni leit stýrihópurinn í starfi sínu til þess að með þingsályktuninni var stjórnvöldum falið að „leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð“. Hópurinn taldi af því tilefni til að taka til skoðunar tvö viðfangsefni.

Afnám refsinga vegna ærumeiðinga

Annars vegar taldi stýrihópurinn tilefni til að skoða hvort rétt væri að afnema refsingar við ærumeiðingum þannig að farið yrði með slík brot sem einkamál í stað refsimála. Af því tilefni ritaði stýrihópurinn refsiréttarnefnd bréf, dags. 28. júní 2012, þar sem óskað var álits nefndarinnar á því hvort afnema skuli refsingar vegna ærumeiðinga í XXV. k. alm. hgl. Gaf nefndin af því tilefni álit sitt, dags. 12. nóvember 2012, þar sem nefndin sagði til greina koma að afnema refsiákvæði 234. til 237. gr. alm. hgl., að hluta eða öllu leyti, en áfram yrði þó að tryggja að þeir sem teldu vegið að æru sinni og mannorði á opinberum vettvangi nytu fullnægjandi réttarúrræða, einkum í formi ómerkingar ummæla og greiðslu miskabóta. Á árinu 2015 hóf stýrihópurinn að smíða drög að frumvarpi til laga um afnám refsiákvæða sem lögð eru við ærumeiðingum í alm. hgl. Af því tilefni skoðaði hópurinn löggjöf víða annars staðar í Evrópu um þetta efni, meðal annars nýleg norsk lög um afnám refsinga við meiðyrðum. Að lokinni skoðun sinni samdi stýrihópurinn drög að frumvarpi að lögum um ærumeiðingar.

Breyting á 233. gr. a alm. hgl. (verndarandlag ákvæðis um hatursáróður)

Hins vegar taldi stýrihópurinn að tilefni væri til að skoða hvort rétt væri að skerpa á orðalagi 233. gr. a alm. hgl., um hatursáróður. Að þeirri skoðun lokinni samdi hópurinn drög að frumvarpi til laga um breyting á almennum hegningarlögum þar sem gerðar eru lítilsháttar breytingar hvað varðar verndarandlag ákvæðisins um hatursáróður.