Þingsályktunin

Þann 16. júní 2010 samþykkti Alþingi þingsályktun um að Ísland skapi sér af­ger­andi laga­lega sér­stöðu varðandi vernd tján­ing­ar- og upp­lýs­inga­frels­is. Með ályktuninni var ríkisstjórninni falið að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð. Mennta- og menningarmálaráðherra var falið að vinna að framgangi tillögunnar. Þann 27. janúar 2011 gaf ráðherra Alþingi munnlega skýrslu um framkvæmd þingsályktunarinnar.

Starf stýrihópsins frá 2012 til 2013

Ráðherra skipaði stýrihóp þann 3. maí 2012 til að vinna að framgangi þingsályktunarinnar. Í skipunarbréfi hópsins sagði svo um verkefni hans:

„Stýrihópurinn skal skila tillögum sínum til ráðuneytisins í formi greinargerðar með umfjöllun um helstu álitaefni og stefnumörkun fyrir helstu efnisþætti nauðsynlegra lagabreytinga í samræmi við niðurstöður hennar. Stýrihópurinn skal hafa lokið störfum eigi síðar en 1. maí 2013. Umfjöllun í greinargerð stýrihópsins skal vera greinandi með ítarlegum rökstuðningi fyrir ástæðum tillagna, styrkleikum þeirra og ávinningi. Á grundvelli greinargerðar stýrihópsins verður svo samið heildstætt lagafrumvarp í ráðuneytinu.“

Sýrihópurinn hafði fastan starfsmann sem skyldi starfa í þágu hópsins í aðalstarfi og hafa aðsetur í ráðuneytinu. Þann 11. október 2012 flutti ráðherra Alþingi aðra munnlega skýrslu sína um framkvæmd þingsályktunarinnar. Stýrihópurinn tók m.a. saman gögn tengd efnisatriðum þingsályktunarinnar, setti fram verkáætlun og hélt málþing um tjáningarfrelsi og vernd afhjúpenda.

Starf stýrihópsins frá 2015 til 2016

Í febrúar 2015 gaf ráðuneytið út nýtt skipunarbréf en í því sagði svo um verkefni hans:

„Stýrihópurinn skal leggja til eða undirbúa jafnóðum nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf ef stýrihópurinn telur þær tillögur falla vel að tilgangi þingsályktunarinnar. Í tengslum við framangreint er mikilvægt að tryggð sé góð samvinnu innan stjórnarráðsins þar sem tillögur stýrihópsins gætu átt undir málefnasvið annarra ráðuneyta og því er nauðsynlegt að þeim verði komið í réttan farveg innan stjórnarráðsins.“

Stýrihópurinn fundaði 20 sinnum frá 28. apríl 2015 til 13. júní 2016. Svo sem fram kemur í fundargerðum stýrihópsins skipti hann verkefni sínu upp í tíu verkhluta með hliðsjón af efnisatriðum þeirrar tillögu sem varð að þingsályktuninni. Því til samræmis eru niðurstöður stýrihópsins settar fram í tíu liðum.